Menu

Tímamót

Síðasta vika er greinilega tími hinna miklu tímamóta. Ferguson hættir, Carragher hættir, Owen hættir, Pulis hættir, Moyes tekur við United, Sigmundur Davíð verður forsætisráðherra og Bjarni Ben verður fjármálaráðherra. Að ekki sé nú minnst á sjálfan mig, sem mun nú færa mig talsvert aftar á svið CrossFit Sport, eftir fimm ótrúlega gefandi og skemmtileg ár.

 CrossFit Sport breytti mér og lífi mínu, gerði mér kleift að finna og rækta það besta í sjálfum mér en afhjúpaði líka alls konar takmarkanir sem kenndu mér auðmýkt. Fyrir vikið held ég að ég sé betri maður nú en áður.

Ég var í fæðingarorlofi frá starfi mínu sem dósent við HR vor og sumarið 2008, vaknaði með litla augasteininum mínum henni Hildi Svövu á hverjum degi, gaf henni að borða, við skutluðumst í Sporthúsið – hún í barnagæsluna og ég að gera WODdið af crossfit.com. Ég hafði kynnst CrossFit í mars það ár, varð fljótlega forvitinn og ákvað að nota sumarið í að kynnast þessu æfingakerfi betur. Sem ég og gerði. Nokkrum mánuðum síðar hafði ég ryksugað upp allt sem til var um CrossFit á netinu, pantað mér pláss á Level 1 námskeiði í Virginia og náð samkomulagi við Þröst og Inga, eigendur Sporthússins, um að setja af stað CrossFit þjálfun í „bláa salnum“, sem nú er spinning salur Sporthússins.

Í ágústmánuði það ár var enginn óhultur. Ég lét dæluna ganga um óendanlega kosti CrossFit, fléttaða saman við mínar eigin óhagganlegu hugmyndir um hvað margt í líkamsræktarbransanum væri allgjört búllsjitt, hvernig ég ætlaði að gera hlutina öðru vísi og hvernig viðkomandi ætti eiginlega ekki annarra kosta völ en að skrá sig. Þorlákur Karls beit strax á öngulinn og tók með sér öðlingana Óla Sam og Valda. Davíð Halldór var veiddur í sturtu. Hilmar, Kristín, María, Jóna, Alda, Gunnar og hin í Þrekmeistarahópnum fylgdu glöð með. Og svo koll af kolli. Þetta hark skilaði 27 manna flokki sem skipt var í tvo hópa, byrjendur og lengra komna. Allir æfðu kl. 06:00. Fljótlega bættust við tveir frábærir fimm manna hópar, karlahópur úr gamla Glitni, og nokkrar valinkunnar eðalkonur úr atvinnulífinu. Eitt til tvö fótboltalið úr efstu deild létu vaða, og síðast en ekki síst, komu blessaðir Flollarnir. Þann 13. janúar 2009 man ég að 29 manns skráðu sig á grunnnámskeið, og af þeim héldu 27 áfram í framhald. Gunnar Leifsson keypti fyrsta 12 mánaða samninginn og boltinn var rúllaður af stað. Þrjár æfingar í viku og sameiginleg laugardagsæfing fyrir alla var módel sem ég stal frá Boot Camp.

Í apríl 2009 sendi ég í rælni tölvupóst á Dave Castro, sem nú nálgast það að vera einvaldur í CrossFit heiminum, og spurði hann hvort Ísland fengi ekki pláss fyrir einn karl og eina konu á heimsleikana þá um sumarið. Ég hef aldrei fengið langan póst frá Castro og þessi var engin undantekning. „Sure, you can have one spot each“ var svarið. Annie Mist og Sveinbjörn fengu plássin, þau æfðu hjá mér í bláa salnum í tvo mánuði, fóru út á Heimsleikana, and the rest is history.

https://www.facebook.com/photo.php?v=1164821676272&set=vb.98669167268&type=3&theater

Sumarið 2009 var ljóst að blái salurinn myndi ekki duga mikið lengur þ.a. það varð úr, mest fyrir tilstilli framkvæmdagleði þeirra Sporthússbræðra, að við flyttum yfir í hinn enda hússins þar sem verið var að rífa niður driving range og púttgrín, eldri borgurum Kópavogs til mikillar armæðu. Tveir flottir salir, gúmmí á gólfum, nýjar græjur frá Rogue og það sem mestu máli skipti, iðnaðarbílskúrshurð og útisvæði, alveg eins og í alvöru CrossFit boxum í Kaliforníu.

https://www.facebook.com/photo.php?v=1528207360687&set=vb.98669167268&type=3&theater

Eftir þetta rúllaði boltinn jafnt og þétt. Það fjölgaði í iðkendahópnum, það fjölgaði í þjálfaraliðinu, og það fjölgaði CrossFit stöðvum á Íslandi. Meira að segja Boot Camp, sem upphaflega leit CrossFit æðið miklu hornauga, gaf eftir á endanum og tók upp CrossFit. If you can‘t beat them join them.

Evrópumeistaratitill og 2. sætið í liðakeppni, tvennir heimsleikar, 3., 4., 5. og 6. sæti í kvennaflokki Evrópumótsins í CrossFit, fjórði hraustasti 55 ára kall í heimi, besti pound-for-pound kvenkyns CrossFittari í heimi, efnilegasta lyftingakona landsins og margt fleira er meðal þess sem skreytir keppnisafrekaskrá okkar í CrossFit Sport. Og það þrátt fyrir að við höfum aldrei skilgreint árangur í keppni sem forgangsatriði. Okkar forgangur er að efla heilsu, breyta lífum venjulegs fólks, búa fólki heilbrigða og fordómalausa umgjörð þar sem allir eiga kost á því að vera þeir sjálfir, og að endurskoða og bæta í sífellu þær aðferðir sem við notum í þjálfun til að hámarka árangur til lengri tíma. Við erum „soft“ CrossFit stöð og við erum stolt af því. Enda er hæg uppbygging með varkárum áherslum eina skynsama leiðin fyrir venjulegt fólk til að koma sér í varanlega gott form.

Við höfum safnað á sjöttu milljón fyrir kvennadeild Landspítalans, auk fjölda annarra minni góðgerðaverkefna. Við höfum tekið við krónískum baksjúklingum og hægt og sígandi byggt þá upp í að lyfta yfir 100 kg í réttstöðulyftu. Við höfum haldið Íslandsmót, úrtökumót, CrossFit námskeið, ketilbjöllunámskeið, innanfélagsmót, parakeppni, liðakeppni, æfingar til heiðurs samkynhneigðum og fjölskylduæfingar. Við höfum, með öðrum orðum, gert alveg ótrúlega mikið af góðum hlutum fyrir fullt, fullt af frábæru fólki. Af því er ég stoltur.

https://www.facebook.com/photo.php?v=10150108425208363&set=vb.98669167268&type=3&theater

https://www.facebook.com/photo.php?v=1521315268389&set=vb.98669167268&type=3&theater

Að undanförnu hef ég skynjað að tími sé til kominn fyrir mig að takast á við eitthvað nýtt og þegar svo er komið er oftast best að láta staðar numið. Það síðasta sem ég vil er að verða dragbítur á hið frábæra starf CrossFit Sport. Ég hellti allri minni starfsorku, tilfinningum, einbeitingu og kærleika í að koma þessu fyrirtæki á laggirnar og hef við það eignast meira af góðum vinum og góðum minningum en nokkur maður getur beðið um. Fyrir það er ég ykkur öllum óendanlega þakklátur. CrossFit Sport breytti mér og lífi mínu, gerði mér kleift að finna og rækta það besta í sjálfum mér en afhjúpaði líka alls konar takmarkanir sem kenndu mér auðmýkt. Fyrir vikið held ég að ég sé betri maður nú en áður.

Og nú er sem sagt þessum kafla lífs míns lokið. Við Jónína höfum selt Sporthúsinu CrossFit Sport og þar með falið þeim öðlingsbræðrum, Inga Páli og Þresti, og öllu því ótrúlega trausta og góða starfsfólki sem við höfum verið svo lánsöm að fá til liðs við okkur, að halda ótrauð áfram að viðhalda og byggja upp kröftugt og skemmtilegt starf.

Það er ekki þar með sagt að ég sé eitthvað að fara úr CrossFit Sport, síður en svo. Ég sit í stjórn með þeim bræðrum, ég mun að sjálfsögðu æfa áfram í CrossFit Sport (og vonandi meira en að undanförnu!), þjálfa kannski eitthvað pínulítið og líklega hafa frjálsari hendur til að taka þátt í (og jafnvel standa fyrir) skemmtilegum uppákomum sem einn af því góða fólki sem myndar hið frábæra samfélag CrossFit Sport. Mitt fyrsta stopp er á æfingu á morgun, fimmtudag kl. 12. Ég hlakka til þess að hitta ykkur sem flest þar.

Leifur Geir Hafsteinsson
Stoltur stofnandi CrossFit Sport