Menu

Evrópuleikarnir 2014 - Saga CrossFit Sport

Eftir að Open lauk var ákveðið endanlega hverjir yrðu í liðinu og við tóku stigvaxandi liðsæfingar. Síðustu vikur fyrir mót hittumst við a.m.k. 2 sinnum í viku á milli þess sem við unnum hvert í sínum veikleikum. Eftir að WOD voru gefin út tæpum 2 vikum fyrir mót gerðum við lítið annað en að æfa þau og tókum við flest WOD-in 2 sinnum í heild sinni en svo tók hver og einn fyrir sitt hlutverk þar sem lítið var um skiptingar, eins og t.d. handstöðuarmbeygju wod-ið sem var í raun einstaklingswod.

Regional Team Wods

WOD-in komu okkur mikið á óvart, lítið var um þyngdir eins og í fyrra en þeim mun meiri tækni og fimleikar. Þetta var gott og slæmt fyrir okkur. Þar sem Daði fór nýlega í botnlangaaðgerð var ágætt að þyngdirnar voru ekki meiri enda ekki búinn að jafna sig 100% eftir aðgerðina. Við stelpurnar hefðum aftur á móti kosið meiri þyngdir! Það var aldeilis jákvætt að wod-in reyndu ekki mikið á þol, enda hefði undirrituð (Fríða) mögulega dáið, og jafnvel James líka sem sökum flutninga hafði ekki getað æft eins og hann hefði kosið. Við Ingunn höfum aldrei getað gengið á höndum og rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar það WOD var gefið út. Við vorum að vonast til að hinir liðsmennirnir mættu ganga fram og til baka að vild til að bæta okkur upp en sú var ekki raunin. Ingunn hafði bara aldrei æft dauðar handstöður, það hafði „gleymst“ og rétt fyrir mót náði hún ekki einni og Davíð kannski 1-2. Þetta átti eftir að breytast mikið á næstu 10 dögum!

Það voru s.s. nokkur atriði sem okkur fannst ekki okkur í hag, og við bættist mikið vinnuálag og fleira sem hjálpaði ekki í undirbúningi. Við fórum því inn í mótið að sjálfsögðu með það markmið að komast á pall, en okkur fannst sá möguleiki bara 50/50 (James var reyndar alltaf viss, komst ég að eftirá! :) Það voru 2 lið fyrir ofan okkur í Open; Bath og DC. Í þessum liðum voru mjög sterkir einstaklingar sem hefðu getað farið í einstaklingskeppni, við töldum að þau væru nokkuð örugg áfram og baráttan yrði um 3ja sætið.

Föstudagurinn

WOD 1: Muscle-Ups + Clean & Jerks

YouTube Horfa á WOD-ið
Endaspretturinn | Viðtal

Get good at what you are bad in and better in what you are good in. Daði Hrafn

Mesti kvíðahnútur okkar Ingunnar, en allir hinir í liðinu áttu auðvelt með þessi Muscle Ups. Við tókum þetta WOD daginn sem paramótið var haldið, kl.8 að morgni og á þeirri æfingu gátum við varla eitt MU nema með herkjum. Ingunn átti að taka 12 og ég 9, við höfðum einu sinni gert þetta í heild og þá hafði Daði lyft mér í hringina en það mátti ekki á mótinu. Við höfðum mestar áhyggjur af því að þetta WOD var einmitt snemma morguns en til að gera MU þarf maður að vera vel vakandi og vel heitur. Við vöknuðum því eldsnemma og byrjuðum snemma að hita vel upp, meðan hinir slökuðu á Skemmst frá því að segja að þetta hefur aldrei tekist eins vel. Daði, Þurí, James og Davíð tóku sín auðvitað óbrotin, en við Ingunn 2-3 í einu.

Þegar ég kom í mark og við sáum að við UNNUM fyrsta WOD keppninnar næstum misstum við okkur úr gleði, þetta var svo óvænt, það gekk allt upp og við komin með sigur á mótinu.

WOD 2 - 3: Snörun og max handstöðuganga

YouTube Horfa á WOD 2 | Horfa á WOD 3
Þurí | Davíð | Ingunn | Síðustu 30s | Síðasta lyftan og fagnið

Davíð fékk það hlutverk að setja á stangir og stýra hvað ætti að fara á hvenær, enda sérfræðingur í þessum pundum og sumir í liðinu þekktir fyrir að klúðra þeim. Stefnan var að allir tækju örugga þyngd fyrst, enda bara 2 tilraunir á mann á 6 mínútum. Við höfðum æft þetta og við stelpurnar farið í 65-75kg og strákarnir 85-92kg og gengið vel. Ég hafði nokkrum sinnum náð 72kg svo ég byrjaði í 65 en stressið náði tökum á mér og ég missti fyrri lyftuna. Það var það versta sem gat gerst. Hinir náðu allir sínum tveimur lyftum, og Þurí tók auðvitað sín 70kg. Ég lækkaði í 59kg og tók það sem betur fer, annars hefðum við hrunið niður í þessu WOD-i, í stað þess að lenda í 2.sæti. Mörg liðin áttu einn liðsmann sem missti báðar lyftur og það var „consistency“ sem skilaði okkur 2. sætinu í þessu WOD-i.

Eitt magnaðasta moment keppninnar hjá okkur var þegar við áttuðum okkur á að strákarnir áttu bara 30 sekúndur til að ná öllum 3 seinni lyftum sínum. James skellti 85kg á og vippaði því upp, svo hljóp Daði að stönginni og fleygði henni einnig upp, ég hugsaði þá að það væri ekki séns að Davíð næði þessu á örfáum sekúndum, en hann spretti að stönginni og á síðustu sekúndunni stóð hann upp með stöngina, þvílík snilld! Þeir hefðu getað farið í þyngra ef tími hefði unnist til.

Beint á eftir kom handstöðugangan, sem við héldum líka að yrði ekki okkar besta WOD en þar sem 3 fóru alla leið yfir og Davíð næstum líka þá dugði það til að bæta okkur Ingunni upp, og aftur var 2. sæti í höfn. Þegar við áttuðum okkur á eftir þetta WOD að við vorum efst vorum við í sæluvímu það sem eftir var dags.

Laugardagurinn

WOD 4 - 5: Kaðlaklifur og thruster

YouTube Horfa á WOD-ið
Stelpurnar í Thrusters | Stelpurnar í kaðlana | Stelpurnar aftur í Thrusters | Stelpurnar aftur í kaðlana | Stelpurnar sigra og strákarnir byrja WOD 5 | WOD yfirlit

I gotta tell you I love watching Ingunn here from CrossFit Sport go after these ThrustersMads Jacobsen

Nú vorum við komin með önnur markmið en að ná 3ja sætinu! Við vildum auðvitað vinna og vorum mjög einbeitt. Við hittumst alltaf kvöld fyrir keppnisdag og skipulögðum WOD-in, fórum yfir strategíu. Við stelpurnar höfðum áhyggjur af þessu WOD-i, að klúðra skiptingum, gera of mikið, eða of lítið í hverju setti o.s.frv. Við skrifuðum niður endalausar útgáfur af reps-um sem hver og ein átti að taka og svo fórum við upp á hótelherbergi strákanna og æfðum okkur fyrir framan þá með foam-rúllu fyrir stöng. Það var frekar skondið en þeir vildu frekar horfa á Star Wars. En málið snerist um að nýta Þurí betur í köðlum, án þess þó að hún tæki of lítið af thrusterum. Fríða átti að taka fleiri thrustera og færri kaðla og svo vildum við ekki steikja axlirnar á Ingunni vegna handstöðuarmbeygju-wods sem kom næst. Við höfðum reps-in skrifuð á handleggina og þetta gekk 100% upp og við unnum! Þarna kom sér vel að hafa Þurí snilling í liðinu!

Allt gekk líka alveg upp hjá strákunum og þeir bættu sig um held ég 15-20 sekúndur frá æfingu og við enduðum í 11. sæti. Eina wod-ið sem við enduðum neðar en 5. sæti, en það var mjótt á munum og munaði t.d. bara 18 sekúndum á þeim og 4. sæti.

WOD 6:  Handstöðuarmbeygjur  + Hang power clean + Burpees

YouTube Horfa á WOD-ið
Daði úr handstöðu í HPC

Þetta var síðasta WOD-ið þar sem okkur fannst eitthvað geta farið mikið úrskeiðis. Það var ef einhver myndi frjósa í handstöðuarmbeygjunum og við fengjum þá timecap-tíma. Davíð þurfti að vera nr. 3 í röðinni, s.s. allir strákarnir fyrst. Við fylgdumst spennt með honum þar sem hann fór létt með 9 armbeygjur í fyrstu umferð. Hann hélt sig við strategíu sem var að play-it-safe. Hefði getað tekið fleiri í einu en hann gerði sem hefði samt kannski valdið því að hann hefði frosið eins og gerðist á æfingu. Þetta gekk glimrandi vel hjá honum og hann kláraði, sem hleypti mér og Þurí inn og við kláruðum okkar nokkuð vel.

Við vorum þó sum aðeins hægari en á æfingu sem stafaði kannski af því að við ætluðum að vera varkár sem olli því að Ingunn hafði ekki nægan tíma til að klára sinn hluta, sem var synd því þetta var skítlétt hjá henni, tók alveg 4-3-2 í fyrstu (sem var algjört bann, mátti bara gera 2 en hafði bara svo lítinn tíma) og fór létt með það, náði svo einhverjum í næstu umferð þegar tíminn rann út. Þetta skilaði okkur 4. sæti sem var nú bara meira en ásættanlegt! En þarna áttum við samt eitthvað inni.

Sunnudagurinn

Á liðsfundi kvöldið áður var lítið talað um annað en að vera örugg með allt, þó það yrði á kostnað einhverra sæta, enda vorum við með um 20 stiga forskot og þyrftum að klúðra ansi miklu til að missa það. En við höfðum séð lið í forystu í öðru region-i sem klúðraði lokawod-inu (overhead hnébeygju) og hrunið niður og misst af sæti á palli, eins og Sam Briggs (handstöðugangan) og Katrín Tanja (kaðlaklifur) svo við vissum að þetta væri ekki búið.

WOD 7:  Róður – DU – DL – T2B

YouTube Horfa á WOD-ið

Við vissum að við ættum góðan tíma í þessu m.v. önnur region og höfðum ekki miklar áhyggjur. Erfitt að klúðra einhverju svo markmiðið var aðallega að næstum því drepa sig í róðrinum. Því það var eiginlega það sem skipti öllu í þessu WOD-i, DL og T2B var aldrei flöskuháls. Svo áttu Þurí og Daði að taka þetta á sprettinum í lokin. Þetta gekk allt mjög vel, vorum aðeins hægari en á æfingu en það voru líka meiri vegalengdir milli tækja og við fengum einhver no-rep, en þess má geta að dómararnir í þessari keppni voru MJÖG strangir og við pössuðum okkur að ýkja allar hreyfingar til að fá engin no-rep. Ég held við höfum staðið okkur betur þar en mörg önnur lið og það skilar helling.

WOD 8: Upphífur og OHS

YouTube Horfa á WOD-ið
That is Ingunn Ludvigsdottir | Dadi enters the course

Eats nails for breakfast Rory McKernan um Daða Hrafn

Lokawod-ið og nú skipti öllu að vera örugg. Flestir tóku extra langan tíma til að hrista hendur eftir upphífur til að ná örugglega OHS óbrotnum, sem allir náðu. En eftirá sáum við að við hefðum öll getað farið hraðar, þetta var engin spurning og við hefðum átt að klára wod-ið og vinna það. En markmiðinu var náð, við vorum búin að vinna og engin eftirsjá af neinu lengur!

Það var auðvitað ólýsanleg tilfinning að hafa unnið þetta og sérstaklega þar sem við bjuggumst alls ekki við því. Það var ÆÐISLEGT að hafa nokkra CrossFit-sportara o.fl. Íslendinga sem voru á staðnum, plöntuðu sér eins nálægt okkur og hægt var og öskruðu úr sér lungun. Verð bara að minnast á Grím og Svönu sem eru alveg æðisleg og hafa mætt held ég síðustu 3-4 ár. Og það sem var einna skemmtilegast eftir keppnisdagana var að kíkja á FB og skoða allar kveðjurnar frá fólkinu okkar heima, þvílíkur stuðningur, við áttum ekki orð.

Nú tekur bara við undirbúningur fyrir enn stærri keppni; heimsleikana í júlí! Þar úti eru ROSALEG lið sem verða ansi hörð í horn að taka en við ætlum að æfa eins og við mögulega getum og gera okkar allra besta.

 

Lokaniðurstaða Evrópuleikanna 2014
1. sæti CrossFit Sport 28 stig
2. sæti Team Tegen 46 stig
3. sæti CrossFit Falun Måndagsklubben 52 stig

 

Lið CrossFit Sport: Þurí, Fríða, Ingunn, Davíð, James og Daði