Menu

Sagan hennar Fríðu

Fríða Dröfn Ammendrup, tölvunarfræðingur og þjálfari hjá CrossFit Sport er engin venjuleg 36 ára kona. En við hjá CrossFit Sport svo sem vissum það fyrir. Samt gat maður ekki annað en fylgst með í sérkennilegri blöndu af fullkominni vantrú og tandurhreinni aðdáun, þegar þessi hægláta og hógværa þriggja barna móðir sigldi, að því er virtist áreynslulaust, gegnum eitt erfiðasta íþróttamót sem haldið er í Evrópu á hverju ári, einstaklingskeppni Evrópmótsins í CrossFit 2013. Og lenti í 14. sæti! Og það aðeins sjö mánuðum eftir fæðingu hennar þriðja barns og erfiðrar meðgöngu sem bætti á hana heilum 20 kg! „Hvernig er þetta hægt?“ kann einhver að spyrja og til að svara því tókum við Fríðu tali.

Jæja Fríða mín, þú eignaðist Mattías í október 2012, pældirðu aldrei í að taka því bara rólega eftir fæðinguna? Orðin 36 ára, nýbúin að eignast þitt þriðja barn eftir erfiða meðgöngu. Kannski gefa þér ár í að jafna þig og chilla aðeins með fjölskyldunni?
Nei, það er rétt að meðgangan fór alls ekki vel í mig en ég talaði mig á vissan hátt í gegnum hana með því að telja niður dagana þar til ég væri búin að eiga og gæti komið mér aftur í form. Þegar ég var ólétt fitnaði ég heilmikið, þyngdist um 20kg. En ég vildi ekki bara losna við kílóin, ég vildi koma mér aftur í mitt fyrra form og komast í lið CFS á Evrópumótinu 2013. En ég vissi að ég myndi ekkert labba beint inn í liðið, ég þyrfti að sanna mig í CrossFit Open svo ég vissi að þetta þyrfti að gerast frekar hratt þar sem ég átti að eiga í byrjun október og Openið fer fram í mars. Mér fannst þetta hreinskilnislega svolítið óraunhæft markmið því kílóin voru mörg og margt sem þurfti að ná upp æfingalega séð, og svo auðvitað sú staðreynd að ég ætti ekki eftir að hafa mikinn tíma til að æfa, með 3 börn, jólin að nálgast o.s.frv. En það var eitt sem ég gat gert í stöðunni og það var að taka mataræðið í gegn og bæta æfingaleysi upp með betra mataræði, og það var það sem ég gerði.


28. september. Tíu dögum fyrir fæðingu.

Þannig að þú lagðir meiri áherslu á mataræðið til að bæta upp fyrir minna svigrúm til æfinga?
Já, rétt.

Ert þú sem sagt ein af þeim sem hendir út brauði, sykri og snakki án þess að finna fyrir því?
Nei, aldeilis ekki. Ég hef reynt árangurslítið að ná tökum á mataræðinu síðan ég var unglingur og þekki svo vel þetta endalausa „ströggl“. En í þetta skiptið gekk það upp og ég hef oftar en ekki hugsað eftir þessa reynslu að fyrst ég gat þetta, þá geta þetta allir!


Mæðginin 10 klst eftir fæðingu Mattíasar. Upphafspunktur endurkomunnar!

Og hver var svo lykillinn að árangrinum?
Það sem mér finnst hafa vera lykillinn að þessu er að ég hafði markmið og gleymdi því aldrei. Ég ÆTLAÐI að komast í lið CrossFit Sport! Ég var strax komin á nokkuð góðan stað eftir 3 mánuði, en æfði samt bara 3-4x í viku og flestar æfingarnar stuttar. Ég hef undanfarin ár æft miklu meira en það, en einhverra hluta vegna skilaði það sér í miklu minni árangri en það gerði þarna, þrátt fyrir þetta fáar æfingar í viku. Það er alveg á kristaltæru í mínum huga að það var vegna mataræðisins. Eins og einn vitur maður sagði við mig einu sinni, þú getur tekið 3 skref fram á við með æfingum en farið svo 1-2 (jafnvel 3) skref afturábak með slæmu mataræði. Ég held við þekkjum þetta flest. En mataræðið, það er víst ekkert frumlegt þar á ferð, ég bara tók út sykur og hveiti :). Ég var mikill nammigrís og hef oft reynt þetta, en í þetta skipti var þetta öðruvísi. Ég var svo ákveðin að komast á þetta Evrópumót að það hálfa væri nóg og var mjög ströng fyrstu vikurnar, það fór ekki eitt seríós upp í mig. Það sem ég gerði: ég tók alveg út hvítan sykur, hveiti og korn, jók mikið neyslu á grænmeti og kjöti/fiski og síðast en ekki síst, borðaði ekkert eftir kl. 20 á kvöldin. Ég passaði að eiga alltaf eitthvað hollt í ísskápnum, og ef eftirmiðdags-sykurlöngunin kom upp þá var ég fljót að stinga upp í mig 2 tómötum eða hálfri gúrku, prófið það!! Ég borðaði mjög mikið, líka alls konar hrákökur með agave sýrópi/hunangi (nammigrísinn þarf sitt), en með því að borða bara hollt og ekkert eftir kl.20 þá var þetta alveg lygilega auðvelt.


Mattías 5 og hálfs mánaða og Fríða 36 og hálfs árs

Og þetta dugði til þess að þessi 20 kg bara hrundu af þér?
Ja, sko ég vildi ekki léttast um meira en 500g á viku, og tölvunördinn ég setti þetta náttúrulega upp í Excel skjal og átti samkvæmt því að vera komin í gömlu þyngdina mína í febrúar og það gekk alveg upp. Ef ég léttist meira en 500g þá borðaði ég bara aðeins meira, því ég þurfti jú að styrkja mig í leiðinni. Það er alveg hægt að léttast og styrkjast á sama tíma ef þú passar þig á að léttast ekki of mikið og borðar hollt, það er allavega mín reynsla. Ég fæ mér alltaf stóran morgunmat, passa mig að borða strax eftir æfingu og fæ mér vel útilátinn kvöldmat með nóg af grænmeti sem dugar fram að næsta morgunmat.

Þetta hljómar alveg fáránlega vel, og einfalt. En var þetta svona létt eins og það leit út fyrir að vera?
Sko, já og nei. Það eru alltaf freistingar, en það sem hvatti mig áfram var eins og áður sagði markmiðið um EM. Ég minnti mig á það í hvert sinn sem ég var við það að stinga upp í mig einhverju rusli. „Mun þetta súkkulaði hjálpa þér í Openinu?“ og „viltu standa þig vel á EM eða ekki?“ eru dæmi um það sem ég sagði við mig, og oftast var þetta nóg.


Fríða á CrossFit leikunum 2013.

Gerirðu sem sagt dálítið af því að tala við sjálfa þig?

Haha, já já, ef það dugir ekkert annað. En það sem var líka hvatning var almenn miklu betri líðan. Til dæmis fæ ég mikinn náladofa í aðra hendina ef ég missi mig í nammi (var svo slæm um jólin að ég gat ekki sofið heilu næturnar), þetta hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar ég hreinsa mataræðið. Annað er að ég hætti nánast alveg að upplifa þessa eftirmiðdagsþreytu, eða að sofna þegar ég er að lesa fyrir krakkana, eða að það sé erfitt að vakna á morgnana (þrátt fyrir kannski 5 tíma slitróttan svefn), og síðast en ekki síst er ég orkumeiri á æfingum og upplifi miklu sjaldnar þetta „slen“, hef meira úthald í WOD-unum, meiri sprengikraft í ólympískum o.s.frv. og þá auðvitað gerast hlutirnir hraðar!

Og svo er annað, ég hef verið að glíma við bólgu í annarri öxlinni mjög lengi og ég er að segja ykkur það að þegar mataræðið er gott þá er ég góð í öxlinni, finn ekki fyrir henni. Á sunnudagsmorgni þegar ég vakna eftir laugardags-sukk þá er ég aftur komin með verkinn í öxlina. Allt Evrópumótið fann ég ekki fyrir öxlinni, eins mikið álag og þessi keppni var. Eftir að hafa borðað fríhafnarnammi í 2-3 daga (ekkert brjálað mikið einu sinni) var ég aftur komin með í öxlina. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað mataræðið skiptir miklu máli.

Í dag borða ég hafragraut og leyfi mér nammi á laugardögum en löngunin í það er miklu minni. Ég held mig við það að borða ekki eftir kl.20 og borða nánast aldrei brauð/korn. Fæ mér stundum kolvetnadrykk á æfingu en það þarf hver og einn að prófa sig áfram með hvað er óhætt án þess að setja allt úr skorðum. Sykurpúkinn dúkkar oft upp og þetta er eilífðar verkefni, en með því að gleyma sér ekki og halda sykri/hveiti í lágmarki þá er hægt að halda honum niðri. Og mikilvægast finnst mér eftir sukk dag að vera harðákveðin næsta dag að borða bara hollt og ná mér strax á strik, því ef sukkið nær yfir 2 daga eða fleiri þá er orðið miklu erfiðara að ná sér út úr því.


Á Evrópumótinu 2013

Og frammistaða þín í CrossFit Open kom ekki aðeins liði CrossFit Sport áfram, heldur ávannstu þér réttinn til að taka þátt í einstaklingskeppni kvenna, mættir til Köben í besta formi lífs þíns og tókst einstaklingskeppnina (sem var algjörlega brútal erfið fyrir þá sem ekki fylgdust með) í nefið!?!
Ég segi nú kannski ekki í nefið, en það kom mér á óvart hvað þetta gekk vel og hvað líkaminn hélt þetta út.

[Innskot LG: Fríða sigldi ótrúlega vel í gegnum öll WOD keppninnar, lenti aldrei í vandræðum, aldrei neðar en í 23. sæti og tók best 5. sæti í WOD2, overhead hnébeygju. Þessi jafna og góða frammistaða skilaði henni eins og áður sagði 14. sæti í keppni 41 stúlku, sem langflestar voru milli 20 og 30 ára gamlar. Fríða var ein fjögurra 36 ára aldursforseta mótsins.]

En aðallega kom það mér á óvart hvað mataræðið er ÓTRÚLEGA stór þáttur í frammistöðu. Það er algjört kraftaverk að ég skuli hafa lést um 20kg á sjö mánuðum og samhliða því komið út sterkari en ég hef áður verið, bæði í líkamsæfingum og með stöng.


Stoltur keppandi. Með nýja kreditkortið sitt.

Alveg magnað, sammála því. Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum? Fyrst og fremst að ég ég vil að fleiri njóti þeirrar ánægju sem ég hef upplifað, því það er ekkert lítið sem rétt mataræði gerir fyrir mann. Svo vil ég líka minna fólk á að það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ef maður setur sér markmið og sér það fyrir sér verða að veruleika geta góðir hlutir gerst. Sérstaklega ef maður er þolinmóður, því góðir hlutir gerast hægt (en samt frekar hratt J).

Fríða mín, þú ert algjör hetja og frábær fyrirmynd. Takk fyrir spjallið.

 

EFTIRMÁLI

Það má ýmislegt læra af þessari frábæru sögu hennar Fríðu. Hér að neðan hef ég (LG) skrifað upp nokkra punkta sem mér finnast þess verðir að draga sérstaklega fram:

Ekki borða eftir kl 20 á kvöldin.
Þessa einföldu og góðu reglu geta allir nýtt sér, óháð því hvaða markmið þeir hafa eða á hvaða mataræði þeir eru. Staðreyndin er sú að það þjónar ENGUM GÓÐUM TILGANGI að borða á kvöldin. Það truflar svefn, ýtir undir óæskilegt hlutverk matar sem verðlauna/huggunar/félagslegs fyrirbæris. Fyrir utan það að flest okkar eru líklegust til að vilja eitthvað óhollt á kvöldin. Ekki borða á kvöldin, það er ekki bara óþarfi, það er vont fyrir líkamann.

Hafðu stjórn á því hversu hratt þú léttist.
Þótt excel skjalið hennar Fríðu daðri við jaðar alvöru nördisma, er ekki hægt að horfa framhjá því að með því að dokumentera nákvæmlega þyngd sína heldur hún góðri stjórn á aðstæðum, sem í hennar tilfelli var alveg nauðsynlegt. Margir hefðu dottið í þá gryfju að drífa sig í að léttast niður í keppnisþyngd, og skömmu fyrir mót setið uppi með léttan líkama sem því miður vantaði hámarksstyrk upp á 20-30%. Ef Fríða hefði gert það hefðu hún í fyrsta lagi aldrei unnið sér inn keppnisrétt í einstaklingskeppni CrossFit Open, og ef hún einhvern veginn hefði komist þangað hefði henni verið slátrað í keppninni sjálfri. Það þarf sterkan haus og mikla trú til að aga sig í svona hæga léttingu, og er enn ein rósin í hnappagat Fríðu.

Ekki falla tvo daga í röð.
Alveg frábær regla. Allt of oft sér maður fólk taka „heimsyfirráð eða dauði“ viðhorfið í mataræðisátökum. Þ.e. fólk er svakalega duglegt þangað til það kemur smá klikk, og þá opnast allar flóðgáttir og allt mataræðið fer í varanlega klessu. Við gleymum því oft að ÞAÐ ER MANNLEGT að klikka stöku sinnum. Ég meina, það eru milljón hlutir í daglegu lífi sem reyna að ota að okkur freistingum. Matarboð, auglýsingar, kósýkvöld, bíóferðir, vinnufélaginn sem var að koma úr fríhöfninni, allir þessir öfundsjúku sem þola ekki hvað þú ert dugleg/ur o.s.frv. Að klikka er ekki vandinn. Vandinn er að koma sér ekki strax á lappir aftur og Fríða sýnir með afgerandi hætti hversu lítil áhrif stöku klikk hefur, ef maður kemur sér strax á lappir aftur.

Bólgueinkenni í öxl og handlegg hverfa við gott mataræði.
Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á þessu, ekki síst gagnvart öllum þeim sem eru með langtíma óþægindi. Hafið þið prófað að borða hollt?

Hvert er hæfilegt æfingamagn?
Það er mjög athyglisvert að Fríða komst í besta form lífs síns, 36 ára gömul, með aðeins 3-4 æfingum á viku og frábæru mataræði. Til að taka af öll tvímæli þá PR-aði hún í öllum helstu lyftum í undirbúningnum fyrir Evrópumótið 2013 og var sterkari en hún hafði áður verið í erfiðum bodyweight æfingum eins og muscle-up. Sérstaklega er þetta ahyglisvert í ljósi sögunnar, þar sem Fríða hefur áður keppt á tveimur heimsleikum og tekið löng tímabil þar sem hún æfir 6-7x í viku. Með því að æfa þetta sjaldan og á solid mataræði hámarkar hún endurheimt, líkaminn fær ótruflaður að vinna úr áreiti æfingarinnar á undan og hefur til þess næga hvíld, og öll byggingarefni og bætiefni sem hann þarf. Á það við hérna að less is more?

Skrifað af Fríðu Ammendrup og Leifi Geir Hafsteinssyni


Greinarhöfundar á góðri stund!